Útgarður - Verslun og þjónusta í nánd við náttúruna
Skipulagssvæði og umhverfi þess
Umhverfi skipulagssvæðisins einkennist af mikilli nálægt við hafið. Í allar áttir er víðsýnt og áhrif sjóndeildarhrings mikil. Garðskagaviti, eitt helsta kennileiti sveitarfélagsins, liggur norðvestur af svæðinu og hefur aðkomu frá Skagabraut líkt og skipulagssvæðið. Landmegin við sjóvarnargarða, til norðurs, er verðmætt 19. aldar menningar- og búsetulandslag, þar sem hlaðnir grjótgarðar mynda áhugaverða umgjörð utan um stakstæð hús, bæjarhóla og akurlendi. Skipulagssvæðið er þó utan þess svæðis. Land skipulagssvæðisins er með aflíðandi halla frá austri til vesturs. Það liggur í u.þ.b. 8 - 12 m hæð yfir sjávarmáli.
Skipulagsleg staða
Deiliskipulagssvæðið vestast í Útgarði er í jaðri byggðar, sunnan Skagabrautar, beggja vegna við gamla Sandgerðisveginn.
Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins eru settar fram forsendur, leiðarljós og ráðandi sjónarmið varðandi framtíðaruppbyggingu svæðisins. Samkvæmt aðalskipulaginu, er landnotkunin verslunar- og þjónustusvæði (VÞ1).
Í forsendum aðalskipulags fyrir deiliskipulag og byggðar mynstur er áhersla lögð á góða heildarmynd og að ný mannvirki falli sem best að landinu ásamt því að deiliskipulagið styrki og efli það mannlíf sem þar er fyrir á svæðinu frá Skagabraut, tengibraut sem er skilgreind sem lífæð sveitarfélagsins skv. aðalskipulagi. Í aðalskipulagi segir „Á svæði VÞ1 þarf við hönnun húsa að huga að útsýni vegfarenda um Skagabraut. Nýta skal landkosti sem best, s.s. sjávarútsýni, landslag og birtuskilyrði. Sérstaklega skal huga að vandaðri hönnun og yfirbragði og laga sig að fíngerðri byggð í umhverfinu.“ Samkvæmt aðalskipulaginu er svæðið ætlað undir hótel, gistiaðstöðu og þjónustu ásamt möguleika á uppbyggingu af öðrum toga, tengdri starfsemi á svæðinu.
Með deiliskipulaginu er stefnt að því að tryggja markvissa og heildstæða þróun svæðis þessa til framtíðar.