Skerjahverfi - Inngangur og skipulagsleg staða
Deiliskipulagssvæðið er á nyrðri hluta svæðis sem skilgreint er sem íbúðarsvæði Í10 í Aðalskipulagi Sandgerðisbæjar 2008 – 2024 og er syðsti hluti þéttbýlis. Skv. aðalskipulaginu er svæði Í10 alls 31 ha og er þar gert ráð fyrir 275 íbúðum. Þar segir m.a. að um sé að ræða íbúðarsvæði með leikskóla, og skiptist byggð í nyrðri og syðri hluta með útivistarsvæði á milli. Ráðgerð sé lág byggð fjölbreyttra íbúðargerða með áherslu á sérbýli.
Deiliskipulagssvæðið sem hér um ræðir nær til íbúðarsvæðis ásamt leikskóla á nyrðri hluta svæðis Í10 skv. Aðalskipulagi Sandgerðisbæjar 2008 – 2024 með aðkomu úr austri og vestri.
Samþykkt var á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs 18. sept. 2018 að leggja til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir íbúðarsvæðið á öllu svæði Í10 og var það samþykkt í bæjarstjórn 4. okt. 2018.
Athugasemdafresti vegna deiliskipulagstillögunnar lauk 28. des. 2018. Á fundi framkvæmda- og
skipulagsráðs 31. jan. 2019 var lagt til að umfang íbúðarbyggðarinnar yrði minnkað verulega til að koma til móts við þær athugasemdir sem bárust við auglýsta tillögu og var það samþykkt í bæjarstjórn 6. feb. 2019. Í samþykktinni fólst að deiliskipulagssvæðið myndi einungis ná til norðurhluta svæðis Í 10 og nyrðri safngötu um hverfið. Lítilsháttar tilfærslur yrðu á húsagerðum innan þess hluta. Deiliskipulagsuppdráttur ásamt greinargerð og skilmálum, hefur verið uppfærður skv. þessari ákvörðun.
Skipulagssvæðið, umhverfi þess og veðurfar
Umhverfi skipulagssvæðisins einkennist af nálægð við strandlengjuna til vesturs.
Land skipulagssvæðisins er fremur slétt með lágum hryggjum og hækkar nokkuð jafnt og aflíðandi til norðausturs. Land liggur í u.þ.b. 10 – 19 m hæð yfir sjávarmáli, lægst í suðvesturhorni og hæst í suðausturhorni. Jarðvegur er fremur grunnur, víða í kringum einn metra.
Á svæðinu eru vetur mildir og að jafnaði snjóléttir. Þar er nokkuð vinda- og úrkomusamt. Eldri íbúðarbyggð í Sandgerði, er fremur lág og eru einnar til tveggja hæða íbúðarhús einkum áberandi.