DEILISKIPULAG LEIKSKÓLA VIÐ BYGGÐAVEG
Inngangur forsenda og skipulagsleg staða
Deiliskipulagssvæðið er norðan við Byggðaveg á svæði fyrir þjónustustofnanir, sbr. breytingu á Aðalskipulagi Sandgerðisbæjar 2008-2024 sem samþykkt var samhliða. Svæðið er án deiliskipulags. Deiliskipulag Lækjamóta og umhverfis, samþykkt 21. maí 2003 m.s.br. liggur að svæðinu sunnan til.
Lækjamóta- og Hólahverfi, nýjustu hverfin innan Byggðavegar eru að verða fullbyggð og samhliða því er þörf á nýjum leikskóla.
Afmörkun skipulagssvæðis og staðhættir
Deiliskipulagssvæðið er um 1 ha að stærð og er norðan við Byggðaveg og austan aðkomuvegar að Byggðavegi 3. Norðan og austan svæðisins er opið svæði til sérstakra nota það sem samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir almennum útivistarsvæðum og skógrækt.
Skipulagsmörk deiliskipulagsins ná suður fyrir Byggðaveg á kafla við gatnamót að Lækjamótum þar sem gert er ráð fyrir hringtorgi. Gerð verður breyting á skipulagsmörkum deiliskipulags Lækjamóta til samræmis.
Staðsetning nýs leikskóla við Byggðaveg liggur vel að Lækjamóta- og Hólahverfi og Byggðavegur tryggir jafnframt góða tengingu við fyrirhugaða íbúðabyggð samkvæmt aðalskipulagi.
Markmið:
- Að móta hagkvæmt svæði fyrir leikskóla með áherslu á gott og öruggt aðgengi.
- Að draga úr neikvæðum áhrifum veðurálags með skjólmyndun.
- Að fyrirhugaður leikskóli nýti kosti sem felast í nærliggjandi náttúru- og útivistarsvæðum.