Iðngarðar

Við deiliskipulagsgerðina er leitast við að nýta landkosti svæðisins sem best og byggja á þeim grunni sem fyrir er.

Samanlögð stærð svæðisins er um 21 ha, þar af er 15,2 ha athafnasvæði, 2,5 ha iðnaðarsvæði og 2,0 ha. íbúðarbyggð.

Skipulagssvæðið er að stórum hluta ætlað fyrir atvinnustarfsemi. Heimilt er að reisa á svæðinu byggingar fyrir þjónustu- og verslunarstarfsemi, léttan mengunarlausan iðnað, hátækni- og vísindafyrirtæki og hverskonar starfsemi, sem uppfyllir kröfur um vandaðan frágang bygginga og lóða.

Um er að ræða 40, misstórar atvinnulóðir undir athafnastarfsemi. Stærð lóða er frá 1.500 fm til 10.200 fm fyrir atvinnustarfsemi og frá 400 fm til 1825 fm fyrir íbúðarhúsnæði.

Atvinnuhúsnæði á athafnasvæðinu skiptist í flokk A1, A2 og A3. Þær lóðir sem falla undir flokk A1 eru staðsettar sunnan við íbúðarbyggð Garðbrautar. Til starfsemi í flokki A1 og A3 eru t.d. verslanir, skrifstofur, hreinleg verkstæði, fyrirtæki í matvælaiðnaði og aðra þjónustustarfsemi. Þær lóðir sem falla undir flokk A3 eru staðsettar í norðausturhluta athafnasvæðisins nálægt gatnamótum Réttarholtsvegar og Garðbrautar.

Aðrar lóðir á skilgreindu athafnasvæði falla undir flokk A2 sem gerir ráð fyrir atvinnustarfsemi sem ekki hefur mengandi áhrif á umhverfi sitt s.s. verkstæði, framleiðsluiðnaður, endurvinnsla og prentþjónusta.

Ein lóð í vesturhorni deiliskipulagssvæðisins er ætluð fyrir stærri ökutæki.

Um er að ræða tvær húsagerðir á skipulagssvæðinu, húsagerð A er fyrir atvinnuhúsnæði og húsagerð B er fyrir íbúðarhúsnæði.

Við Iðngarða og Heiðargarða þar sem eru lóðir fyrir atvinnuhúsnæði er miðað við 1-2 hæða byggingar.

Á athafnasvæðinu er hámarksnýtingarhlutfall 0,5.

Við Garðbraut þar sem eru lóðir fyrir íbúðarhús er miðað við einbýli, 1-2 hæða á misstórum lóðum.

Hámarksnýtingarhlutfall er 0,3 í íbúðarbyggð á skipulagssvæðinu. Sameiginlegar aðkomur eru að húsum þar sem kostur er. Leitast er við að stærð lóða og byggingarreita falli vel að núverandi byggðarmynstri og fornleifum.

Notkun á gróðri skal taka mið af núverandi gróðurfari á svæðinu. Við byggingarframkvæmdir skal halda öllu jarðraski í lágmarki.

DEILISKIPULAGSTILLAGA