Garðskagi - Fjölsóttur ferðamannastaður
Inngangur og forsendur
Deiliskipulag á Garðskaga, vestasta hluta þéttbýlis Garðs, beggja vegna Skagabrautar. Unnið er á grunni núgildandi aðalskipulags svæðis norðan Skagabrautar og aðalskipulagsbreytingar sem unnið er að samtímis deiliskipulagsgerð þessari sunnan Skagabrautar og vinnan byggir á. Gengið er út frá samþættu skipulagsferli á aðal- og deiliskipulagsstigi.
Skipulagssvæðið, umhverfi og afmörkun
Staðurinn býr við mikla víðáttu og sýn til ystu sjónarrandar, nánd við haf og glæsilega fjallasýn. Svæðið stendur fyrir opnu hafi og gætir bæði ágangs sjávar og vinda.
Nálægð við hafið, vitana sem kallast á, varir og gömul býli gefur umhverfinu sérkenni og margbreytileika.
Vitarnir tveir eru kennileiti staðarins og sjást víða að svo sem frá aðalaðkomu að sveitarfélaginu og frá hafi. Garðskagaviti eldri stendur á skeri í flæðarmálinu og frá honum liggur gangbrú í land. Á svæðinu standa einnig tvær byggingar sem verða þar áfram, gamla vitavarðahúsið og byggðasafnið. Byggðin á svæðinu hefur orðið til á löngu tímabili frá 1897 – 1958. Saman mynda þessar byggingar heild og eru í góðu samhengi innbyrðis.
Garðskagi hefur lengi verið einn mest sótti ferðamannastaður á Suðurnesjum.